Þegar breyttar reglur um skimun og sóttkví tóku gildi var ljóst að þeir erlendu veiðimenn sem ætluðu sér að taka þátt í síðsumarsveiðinni eru fæstir að koma.
Það er töluverður fjöldi erlendra veiðimanna farinn að sækja í síðsumars veiðina á Íslandi sem og haustveiðina einfaldlega af þeirri ástæðu að leyfin eru ódýrari en á aðaltímanum en líka að þá er mesti möguleikinn á að setja í stórlaxa. Eftir að reglur um skimun tóku gildi hefur verið mikið um afbókanir og þess er skemmst að minnast að 52 stangir afbókuðu sig í Miðfjarðará og er leigutökum ánna ekki skemmt. Það hefur töluvert borið á auglýsingum á lausum veiðileyfum á vefnum síðustu daga og þar má til dæmis nefna Ytri og Eystri Rangá, Fossá, Langá, Laxá í Dölum, Tungufljót, Laxá í Leirársveit og Skógá bara svo einhverjar séu nefndar en þær eru mun fleiri árnar sem hafa fengið afbókanir.
Leigutakar hafa í mörgum tilfellum gefið ríflega afslætti af þessum stöngum og besta tilboðið sem við höfum séð hingað til hefur verið í Ytri Rangá þar sem 50% afsláttur hefur verið boðinn fyrir lausar stangir þar vegna norðmanna sem forfölluðust. Þetta er líklega óskastaða Íslenskra veiðimanna því nú er hægt að skoða leyfi á verðum sem sjást ekki oft og það eru örugglega margir farnir að hugsa sér til hreyfings sem eru ekki búnir að veiða nóg í sumar.