Stjarna Landsmótsins 2018, verðlaunahesturinn Kveikur frá Stangarlæk 1, hefur verið seldur til Danmerkur fyrir metfé. Eigendurnir segjast munu sakna hans en ákvörðunin hafi verið tekin eftir að Landsmótinu á Hellu var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Afkvæmi Kveiks eru á annað hundrað og segja eigendurnir sín ellefu bera mikinn keim af föður sínum.
Eiðfaxi greinir frá sölunni sem fullyrða má að sé metsala á íslenskum stóðhesti til útlanda. Ragna Björnsdóttir og Birgir Leó Ólafsson, eigendur Kveiks, vilja ekki tjá sig um kaupverðið. Þau segja erfitt að sjá á eftir Kveiki.
Kveikur skaust upp á stjörnuhimininn á Landsmóti hestamanna í Reykjavík sumarið 2018. Þar hlaut hann meðal annars tíu í einkunn fyrir tölt og vilja og geðslag. Á vef Eiðfaxa segir að samspil hans og knapans, Aðalheiðar Önnu Guðjónsdóttur, verði lengi í minnum haft.
Eigendurnir segja að landsmótið í sumar hafi átt að vera síðasta mót Kveiks. Viðræður um sölu fóru í gang að loknu Reykjavíkurmeistaramótinu í byrjun júlí. Það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að selja. Kveikur var taminn hjá Reyni Erni Pálmasyni á Margrétarhofi.
„Þetta er einstakur höfðingi sem er ofboðslega geðgóður og skemmtilegur hestur, hann hefur allt með sér,“ sagði Aðalheiður Anna knapi í viðtali við Magnús Hlyn Hreiðarsson sumarið 2018. Þá var Kveikur hafður í sæðingum, í stað þess að eltast við merar úti í móa, og eftirspurn mikil eftir frammistöðuna á landsmótinu.
Folatollurinn hljóðaði upp á 250 þúsund krónur og var reiknað með því að það yrði notað á um hundrað merar það sumar. Pantað hafði verið sæði í hundrað merar til viðbótar sumarið 2019.
Að neðan má sjá frétt Magnúsar Hlyns þar sem rætt var við eigendurna og knapann.