FH, KR og Valur tryggðu sér í gærkvöldi síðustu þrjú sætin í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
FH vann öruggan 3-0 sigur á Stjörnunni. Steven Lennon kom FH yfir og Ólafur Karl Finsen tvöfaldaði forystuna.
Þórir Jóhann Helgason skoraði svo þriðja mark FH úr aukaspyrnu í síðari hálfleik og þar við sat.
Á Hlíðarenda var meiri spenna er Valur og HK mættust. Kaj Leo í Bartalsstovu kom Val yfir en Bjarni Gunnarsson jafnaði á 88. mínútu.
Því þurfti að framlengja leikinn en í framlengingunni skoraði nýbakaði faðirinn Sigurður Egill Lárusson sigurmarkið.
Mörkunum rigndi á Kópavogsvelli er Breiðablik og KR mættust. Ægir Jarl Jónasson kom KR yfir og Atli Sigurjónsson tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir hlé.
Ægir Jarl kom KR í 3-0 í upphafi síðari hálfleiks áður en Brynjólfur Willumsson minnkaði muninn á 69. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Kristján Flóki Finnbogason kom KR í 4-1 tæplega stundarfjórðungi síðar en annar varamaður, Stefán Ingi Sigurðarson, minnkaði aftur muninn fyrir Blika en þar við sat. Þriðja mark KR vantar í syrpuna hér að neðan.
FH mun mæta ÍBV í undanúrslitunum sem hafði betur gegn Fram í síðasta mánuði og KR og Valur mætast. Undanúrslitaleikirnir fara fram í byrjun nóvember.