Facebook heldur stöðu sinni sem vinsælasti samfélagsmiðillinn á Íslandi en alls segjast 90% landsmanna nota miðilinn reglulega. Vinsældir TikTok, nýjasta risans á markaðnum, fara ört vaxandi en 14% landsmanna segjast nota miðilinn reglulega. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar á vegum MMR um notkun Íslendinga á samfélagsmiðlum.
YouTube er næstvinsælasti samfélagsmiðillinn ef marka má könnunina en 64% landsmanna sögðust nota hann reglulega. Snapchat kom þar á eftir með 62%, Spotify 57% og Instagram 55%. Þá sögðust 3% ekki nota neinn samfélagsmiðil.
Þá var vinsældir TikTok ört vaxandi en 14% allra svarenda kvaðst nota miðilinn reglulega, samanborið við einungis 0,2% í könnun síðasta árs. Nokkra aldursskiptingu var að sjá á notkun TikTok en hún reyndist mest meðal yngstu svarenda, 18-29 ára, eða 42%.
Instagram heldur áfram að sækja á Snapchat, sér í lagi meðal kvenna. Einungis munaði þremur prósentustigum á notkun miðlanna tveggja en 70% þeirra kváðust nota Snapchat reglulega og 67% Instagram.
Könnunin var framkvæmd 4.-8. maí 2020og var heildarfjöldi svarenda 1.023 einstaklingar, 18 ára og eldri.