Þrír jarðskjálftar öflugri en fjórir að stærð skóku Norðurland í jarðskjálftahrinu sem átti upptök sín norðaustur af Grímsey liðna nótt. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni útilokar ekki fleiri stóra skjálfta á svæðinu og bendir Veðurstofan fólki á þekktum jarðskjálftasvæðum á að kynna sér varnir og viðbúnað.
Ekki er vitað um skemmdir vegna jarðhræringanna í nótt, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni, en fólk víða á Norðurlandi fann vel fyrir þeim. Skólastjórinn í Grímsey var þeirra á meðal.
„Ég var enn þá vakandi þannig að ég fann fyrir þessum þremur stóru í nótt og þessum eina sem var í gær. Þeir komu svona eins og bylgja í gegn um húsið hjá mér,“ segir Karen Nótt Halldórsdóttir, skólastjóri í Grímsey.
Fannst skjálftarnir í júní stærri en nú
Miklir jarðskjálftar hafa verið á Tjörnesbrotabeltinu frá því í júní þegar stór hrina reið yfir Norðurlandið. Karen segir að sér hafi fundist jarðskjálftarnir í sumar stærri en þeir sem voru þar í nótt.
„Það voru þarna í júní, á sólstöðuhelginni okkar, þá voru margir [skjálftar] í eyjunni og ég einhvern vegin upplifði þá stærri en þeir sem voru í nótt. Svo hafa verið að koma litlir inn á milli en aðallega voru það þessir stóru í júní og svo þessir sem eru að koma núna sem maður er að finna fyrir,“ segir Karen.
„Fólk er mishrætt við þetta, mönnum er misilla við þetta. Ég er sjálf ekki mjög hrædd við þetta en þetta er óþægilegt og það er óþægilegt að vita að það komi einhver hrina svona af og til.“
Hún segist ekki hafa gert miklar jarðskjálftavarnir á heimili sínu en muni fara að taka niður það brothættasta úr hillunum en að ekkert hafi hrunið hjá henni enn.
Þá segist hún ekki hafa heyrt af neinum skemmdum í bænum. „Þeir koma í mjúkum bylgjum þannig að það hefur allavega ekkert verið að hrynja hjá mér eða neitt slíkt sem ég veit af.