Katrín Tanja Davíðsdóttir er einstök keppniskona og svo mögnuð að yfirmenn CrossFit leikanna ákváðu að verðlauna hana sérstaklega fyrir það að loknum heimsleikunum í CrossFit í nótt.
Dave Castro, yfirmaður íþróttamála hjá CrossFit, tilkynnti það á Instagram síðu sinni í nótt að Katrín Tanja Davíðsdóttir hefði fengið sérstök aukaverðlaun fyrir frammistöðu sína um helgina.
Katrín Tanja var valin „Spirit of the Games“ eða fyrir að vera sú sem var með besta keppnisandann á heimsleikunum í ár. Það má segja að hún hafi verið valin keppnismaður heimsleikanna í ár.
Það má vissulega taka undir það að Katrín Tanja hafi heillað alla upp úr skónum með keppnishörku og drífandi framkomu. Hún kemur um fram allt fram að virðingu og með gleðina í fararbroddi.
Í greininni sem Katrín vann sýndi hún einmitt svakalega andlegan styrk. Þá fengu keppendur að vita það þegar þeir héldu að þeir væru að koma í mark að þeir væru í raun bara hálfnaðir. Katrín stakka allar hinar stelpurnar af á seinni hringnum.
Dave Castro vakti líka athygli á því að Katrín Tanja tók ekki af sér þyngingarvestið í gær fyrr en að allir voru búnir að klára sína grein. Hinir voru fljótir að losa sig við það.
Hér fyrir neðan má sjá Castro tilkynna um þessa heiðursútnefningu Katrínar Tönju.
„Sjáðu Katrínu,“ sagði Dave Castro og bendir á Katrínu Tönju þar sem hún stendur með þjálfara sínum Ben Bergeron að bíða eftir því að allir klári lokagreinina sem var rosalega krefjandi.
„Hún er ennþá með vestið sitt,“ sagði Dave. Hann sér að allir aðrir eru búnir að taka sín vesti af sér. „Svona á þetta að vera. Þú tekur ekki vestið af þér fyrr en allir eru búnir,“ sagði Dave Castro.
Hann notar þetta sem frábært dæmi um hvernig Katrín Tanja ber sig í keppni og kemur fram.
„Þetta litla atriði, sem fæstir taka eftir, er gott dæmi um hvernig Katrín kemur alltaf fram hvort sem fólk er að horfa eða ekki. Þessi kostur hennar fer ekki fram hjá yfirmönnum heimsleikanna í CrossFit og þess vegna fékk Katrín aukaverðlaun þar sem hún var valin keppnismaður leikanna,“ skrifaði Dave Castro á Instagram síðu sína.