Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins [FIFA] greindist í dag með kórónuveruna. FIFA greindi frá þessu í fréttatilkynningu sem sambandið gaf út í dag.
Hinn ítalski Infantino er með væg einkenni og er nú kominn í einangrun. Verður hann í einangrun í að lágmarki tíu daga segir í tilkynningu FIFA.
„Öll þau sem hafa verið nálægt forseta FIFA undanfarna daga hafa verið látin vita. FIFA óskar Infantino forseta skjóts bata,“ segir einnig í tilkynningu sambandsins.
Infantino er fimmtugur að aldri og tók við embætti forseta FIFA árið 2016 af Sepp Blatter sem hrökklaðist úr starfi eftir mikið spillingarmál.