Anton Sveinn Mckee varð fjórði í 100 metra bringusundi í Búdapest dag í alþjóðlegu atvinnumannadeildinni í sundi.
Anton Sveinn McKee keppir með liði Toronto Titans í ISL deildinni og liðið var síðast í öðru sæti.
Anton Sveinn synti hundrað metra bringusundið í dag á 56,72 sekúndum en hann var 86 hundraðshlutum á eftir Hvít-Rússanum Ilya Shymanovich sem vann sundið á 55,86 sekúndum.
Anton var enn fremur aðeins tveimur hundraðshlutum frá þriðja sætinu því Flipe Lima synti á 56,70 sekúndum.
Anton Sveinn vann þessa grein um síðustu helgi þegar hann synti sama sund á 56,30 sekúndum og setti hann þá bæði Íslands- og Norðurlandamet.
Anton synti undir gamla metinu í sundinu í dag en ekki því nýja. Gamla metið var 56,79 sekúndna sund hans frá EM í 25 metra laug árið 2019.
ISL (The International Swimming League ) deildin var stofnuð árið 2019 og er fyrsta alþjóðlega atvinnumannadeildin í sundi. Deildin sem er liðakeppni er skipuð tíu liðum sem hvert og eitt er skipað 32 sundmönnum, sem telja til bestu sundmanna heims. Hvert lið sendir tvo sundmenn í hverja grein, sundfólkið vinnur sér inn stig eftir sætaröð. Einnig er keppt í boðsundum en þar er hægt að fá tvöföld stig.