Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið ráðinn aðalþjálfari karlaliðs FH í fótbolta til næstu tveggja ára. Logi Ólafsson hættir sem þjálfari en verður tæknilegur ráðgjafi, eftir að hafa stýrt liðinu ásamt Eiði í sumar.
FH-ingurinn Davíð Þór Viðarsson verður aðstoðarþjálfari liðsins. Davíð er goðsögn í Kaplakrika eftir að hafa verið fyrirliði liðsins og meðal annars orðið Íslandsmeistari sjö sinnum með liðinu.
Eiður og Logi tóku við FH af Ólafi Kristjánssyni í júlí síðastliðnum og undir þeirra stjórn endaði FH í 2. sæti Pespi Max-deildarinnar, eftir að hafa unnið 10 af 14 leikjum með þá tvo í brúnni. Liðið var auk þess komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins þegar keppni var blásin af fyrir viku.
Starf Loga breytist en í yfirlýsingu frá FH segir að hann taki við nýju starfi sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar FH. Hann muni vinna að stefnumótun og skipulagningu alls afreksstarfs félagsins.
Fjalar Þorgeirsson verður áfram markmannsþjálfari og Hákon Hallfreðsson styrktarþjálfari. Guðlaugur Baldursson hættir hins vegar sem aðstoðarþjálfari.