Ólympíufarinn Anton Sveinn McKee tryggði liði Toronto Titans 12 stig í dag þegar hann vann meðal annars 200 metra bringusund á móti í Meistaradeildinni í sundi í Búdapest.
Um er að ræða fjórða og síðasta mót Antons og félaga fyrir úrslitakeppnina í Meistaradeildinni, sem einnig fer fram í Búdapest.
Fyrri keppnisdagur mótsins var í dag og vann Anton 200 metra bringusundið á 2:03,41 mínútum. Þar með fékk hann níu stig fyrir lið Titans.
Anton keppti einnig í 50 metra bringusundi og kom í bakkann á 26,90 sekúndum, í 5. sæti. Það skilaði þó engum stigum því Emre Sakci úr liði Iron „stal“ stigum Antons og fjögurra annarra keppenda, sem voru meira en sekúndu á eftir Sakci. Sigurtími hans var 25,43 sekúndur og skilaði heilum 24 stigum.
Anton var svo í boðsundssveit Titans í 4x100 metra fjórsundi og átti sinn þátt í að liðið næði 3. sæti, sem skilaði 12 stigum eða þremur stigum á mann.
Anton keppir á morgun í 100 metra bringusundi en þá ráðast úrslitin í þessu móti. Titans eru sem stendur neðstir af fjórum liðum, með 155 stig eða 28,5 stigum á eftir næsta liði, Iron. Þó er ljóst að bæði lið komast í átta liða úrslitin.
Meistaradeildin í sundi (e. ISL) var stofnuð árið 2019 og er fyrsta alþjóðlega atvinnumannadeildin í sundi. Deildin, sem er liðakeppni, er skipuð 10 liðum sem hvert og eitt er skipað 32 sundmönnum, sem allir telja til bestu sundmanna heims. Hvert lið sendir tvo sundmenn í hverja grein og sundfólkið vinnur sér inn stig eftir sætaröð. Einnig er keppt í boðsundum en þar er hægt að fá tvöföld stig.