Farþegaferjan sem strandaði rétt utan við höfnina í Maríuhöfn á Álandseyjum í gær var losuð og dregin í höfn í dag. Hún hélt för sinni áfram til Turku í Finnlandi þar sem hún fer í slipp til skoðunar og viðgerða.
Kafarar fundu engar meiriháttar skemmdir eða leka eftir að Viking Grace strandaði rétt við farþegamiðstöð Viking Line-ferjuútgerðarinnar í Maríuhöfn um miðjan dag í gær. Engan sakaði við strandið og vörðu fleiri en þrjú hundruð farþegar og tæplega hundrað manna áhöfn nóttinni um borð í skipinu.
Finnska strandgæslan fékk tvo dráttarbáta til að koma ferjunni aftur á flot í morgun. Hún var svo dregin til hafnar í Maríuhöfn þar sem hluti farþeganna fór frá borði. Þar fékk skipstjóri leyfi til að sigla henni áfram undir eigin vélarafli til áfangastaðar í Turku á suðvesturströnd Finnlands.
Jan Hanses, forstjóri Viking Line, segir að sterkur vindur hafi líklega blásið ferjunni upp að ströndinni þegar hún strandaði.