Rigningin verður mestmegnis bundin við landið sunnan-og vestanvert á morgun. Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar á Veðurstofu Íslands, hefur rýnt í mælingar og aðstæður fyrir austan.
„Það fer að hlýna með morgninum. Það verður komin hláka eftir hádegi á aðfangadag sem varir fram á jóladag en þá kólnar hratt aftur. Það verður í rauninni mikil hláka um allt land og mikil rigning á vestanverðu og sunnanverðu landinu en það ætti að vera óveruleg rigning á Austfjörðum og á Seyðisfirði, það gætu komið þarna einhverjir örfáir millimetrar,“ sagði Harpa.
„Hins vegar getur snjór bráðnað í hlíðunum sem eykur þar vatnsrennsli þannig að það gætu farið að hreyfast brotsár í skriðunum sem eru þarna og jafnvel skriður í kringum þau.“
Á morgun hlýnar nokkuð skarpt fyrir austan. Útlit er fyrir fimm til átta stiga hita. Á landinu öllu verður hlýjast á landinu norðaustanverðu.
„Þetta er það sem við teljum að gæti gerst við þessi hlýindi og þess vegna hefur verið mælst til þess að halda rýmingu á ákveðnum svæðum fram yfir jól þar til þetta er gengið yfir.“
Veðurstofan mun því fylgjast vel með mögulegum hreyfingum í hlíðunum á morgun en að þessum hlýindakafla loknum ætti stöðugleiki að nást að nýju.

En að aðfangadegi undanskildum, er mesta hættan þá liðin hjá hvað langtímaspá varðar?
„Langtímaspár gera ekki ráð fyrir svona bleytutíð í bráð með rigningu og hlýindum og það er svona frekar í norðlægum áttum eftir þetta og kannski einhver snjókoma með en það er ekkert núna sem gefur til kynna að asahláka sé aftur strax á ferðinni en auðvitað er veðurspá ónákvæmari eftir því sem lengra er horft fram í tímann.“
Frá því að stórar skriður féllu fyrir helgi hefur staðan hratt batnað.
„Allt virðist stefna í rétta átt og í átt að stöðugleika. Það hefur minnkað vatn í borholum, og hreyfingum fer fækkandi, þær eru mældar með svona fastpunktum. Hlíðin virðist almennt vera orðin nokkuð stöðug.“
Veðurstofan vilja því gjarnan sjá að hlíðin standi af sér asahláku morgundagsins áður en hægt verður að meta hvort óhætt sé að hleypa fleiri íbúum aftur heim.
Hyggjast setja upp sjálfvirka mælingarstöð og ráðast í varnaraðgerðir
Fulltrúar Veðurstofunnar hafa síðan skriðuföllin urðu komið fyrir fleiri speglum í hlíðunum til að geta fylgst betur með aðstæðum.
„Hugmyndin með því er sú að það verði í framtíðinni hægt að mæla hreyfingar hlíðarinnar með nákvæmari hætti og vakta hana betur. Það stendur til að koma upp svokallaðri alstöð sem yrði þá sjálfvirk sem gæti tekið mælingar á hverjum degi og jafnvel oftar og þannig væri þá betur hægt að fylgjast með og vakta mögulegar hreyfingar í hlíðinni.“
Í framhaldinu þurfi einnig að meta hvers konar vöktunarbúnað og mælingar gætu nýst til viðbótar. Einnig þyrfti að ráðast í varnaraðgerðir en Harpa segir að til stendur að kynna frumathugun á þeim næsta vor.