Upp komu tvö ný smit á norðanverðum Vestfjörðum í gær. Bæði smitin komu úr þekktum smithópum í Bolungarvík og voru báðir einstaklingarnir því í sóttkví að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.
Einn einstaklingur náði bata í gær og eru nú virk smit í umdæminu alls 45 eða um þrjátíu prósent allra virkra smita í landinu. Virk smit í gær voru 158 á landinu en von er á nýjum tölum á Covid.is klukkan 13.
„Það er því full ástæða fyrir okkur á norðanverðum Vestfjörðum að halda vöku okkar og í allri hegðun okkar að koma í veg fyrir frekara smit. Það gerum við með því að fara eftir þeim fyrirmælum og leiðbeiningum sem yfirvöld leggja fyrir okkur,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum.
Frá og með 4. maí gilda sömu reglur í Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík nema að því leyti að í stað 50 manna samkomubanns verður 20 manna samkomubann. Það gildir einnig fyrir börn í leik- og grunnskólum svo og í íþrótta- og æskulýðsstarfi þeirra.
Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks verður áfram óheimil. Þessi frávik munu gilda í sveitarfélögunum þremur til 11. maí.
Í fyrri útgáfu stóð að virk smit væru 174. Þau eru orðin 158.