Icelandair Group, móðurfélag Icelandair sem tilkynnti í gær um stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar, hyggst efna til hlutafjárútboðs á næstunni sem yrði opið almenningi. Frá þessu er greint í Markaði Fréttablaðsins í dag en greint hefur verið frá því að félagið vinni nú að því að afla sér aukins fjár.
Hið almenna útboð færi þá fram samhliða útboði til fagfjárfesta, lífeyris- og verðbréfasjóða.
Í Markaðinum segir ennfremur að flestir stærstu hluthafar Icelandair geri það að skilyrði fyrir útboðinu að kjarasamningar náist við starfsmenn Icelandair til langs tíma, helst að lágmarki til fimm ára.
Ennfremur er haft eftir greinendum Landsbankans í blaðinu að félagið þurfi að afla sér allt að 29 milljörðum í nýtt fjármagn, til að geta verið í góðri stöðu fyrir næsta ár.