Ráðast ætti í umfangsmiklar úrbætur á vegum landsins nú þegar dregið hefur verulega úr umferð með fækkun ferðamanna. Þetta segir sveitarstjóri Bláskógabyggðar og að þegar sé hafin uppbyggingu á ferðamannastöðum í sveitarfélaginu.
Atvinnuleysi hefur aukist hratt í Bláskógabyggð en Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að um fjórðungur íbúa þar hafi verið atvinnulaus í apríl. Fjöldi íbúa í sveitarfélaginu starfar í ferðaþjónustu enda eru margir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins þar eins og Gullfoss, Geysir og Þingvellir.
Áætlað sé að yfir ein milljón ferðamanna hafi heimsótt sveitarfélagið á síðasta ári en nú séu erlendir ferðamenn þar sjaldgæf sjón. Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri segir mikla óvissu vera meðal íbúa um hvað næstu mánuðir beri í skauti sér. Hún telur mikilvægt að ráðist sé í uppbyggingu á ferðamannastöðum í sveitarfélaginu og að slík vinna sé þegar hafin.
„Mikið af þessum stöðum sem eru hérna eru í ríkiseigu og ríkið er að sinna því núna að fara í uppbyggingu. Það er til dæmis búið að vera að vinna við hönnun á Geysissvæðinu og stendur til að fara í framkvæmdir þar. Það eru fyrirhugaðar framkvæmdir við Gullfoss líka og þjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur fengið auka fjármagn til framkvæmda,“ segir Ásta.
„Síðan hafa aðrir verið að fá styrki úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Skálholtsstaður fékk til dæmis styrk til að gera þar stíg, sveitarfélagið fékk styrk til að ganga frá í kring um hverinn á Laugavatni og gera þetta auðveldara fyrir ferðamenn að skoða.“
Þá segir hún mikilvægt að nýta það hversu mikið hefur dregið úr umferð og ráðast í umfangsmiklar umbætur á vegum landsins.
„Vegakerfið okkar þarf alveg á því að halda að nú notum við tímann til þess að laga það áður en næsta bylgja ferðamanna kemur.“
„Þessi umferðarþungu vegi eins og Biskupstungnabraut þar sem rúturnar þjóta venjulega um þegar eru ferðamenn en fáir eru á ferðinni núna og því er kjörið að laga slíka vegi núna,“ sagði Ásta Stefánsdóttir.