Sænski sóttvarnalæknirinn Anders Tegnell telur að kórónuveiran hafi í raun komið til Svíþjóðar í nóvember á síðasta ári.
„Líklega voru einstaka menn í Svíþjóð smitaðir af kórónuveirunni þegar í nóvember. En það stendur ekki til að kortleggja tilfellin aftur í tímann,“ segir Tegnell í viðtali við sænska fjölmiðla í morgun. „Þetta er ekki eitthvað sem við viljum leggja á heilbrigðiskerfið.“
Fréttir bárust frá Frakklandi í gær að maður þar í landi hafi verið smitaður af kórónuveirunni 27. desember síðastliðinn, það er fjórum dögum áður en greint var frá fyrsta tilfellinu í Kína.
„Ekki var útbreiðsla utan Wuhan fyrr en við uppgötvuðum slíkt í Evrópu. En ég tel að hægt sé að finna einstaka tilfelli meðal ferðamanna sem voru í Wuhan í nóvember, desember. Það er ekki ósennilegt, heldur mjög eðlilegt,“ segir Tegnell.
Hefur nóg á sínum herðum
Hann segir að sænska heilbrigðiskerfið hafi nóg á sínum herðum og því standi ekki til að rannsaka gömul sýni úr sjúklingum sem höfðu leitað á heilbrigðisstofnanir vegna einkenna lungnabólgu eða flensu í lok síðasta árs. „Það er mikið að gera og það myndi ekki leiða til sérstakra aðgerða.“
Tegnell segir að þó kunni að vera áhugavert að rannsaka hvernig veiran breiddist út í Kína og hvernig hún hagaði sér í upphafi faraldursins. Hvort um hafi verið að ræða einstaka smit úr dýri og í mann, eða hvort veiran hafi smitast í hóp manna yfir lengri tíma.
„Það er ekki oft sem við höfum getað rakið smit úr dýrum í menn þegar um er að ræða nýja tegund veiru. Þekking okkar er ekki mikil um hvernig það gerist í raun og veru,“ segir Tegnell og bætir við að það yrði mikils virði til að vita hvernig megi verja sig gegn slíkri þróun í framtíðinni.