Vel gekk að staðsetja hljóðmerki flugritana en þegar kafarar héldu á vettvang með tæki sem átti að leiða þá að þeim kom í ljós að það er bilað og því beðið eftir öðru.
Vél Sriwijaya Air, SJ182, hóf sig á loft frá flugvellinum í höfuðborginni Jakarta á laugardaginn var en hvarf á leið sinni til eyjunnar Borneó. Talið er víst að allir innanborðs hafi farist í slysinu.
Ekki er ljóst hvað varð til þess að vélin hrapaði og því er lögð mikil áhersla á að finna flugritana, sem ættu að geta varpað ljósi á málið.
Þegar er búið að finna brak úr vélinni og sömuleiðis líkamsleifar á leitarsvæðinu. Allir þeir sem voru um borð í vélinni voru frá Indónesíu.
Um Boeing 737-500 vél var að ræða, 26 ára gamla, en flugtaki hafði verið seinkað um hálftíma vegna mikillar rigningar.