Undanfarna daga og vikur hefur nokkur fjöldi fólks greinst með kórónuveiruna á landamærunum. Í gær greindust til að mynda tuttugu og sex einstaklingar en þá komu þrjár flugvélar til landsins frá Varsjá, Kaupmannahöfn og Riga. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir marga þessarra einstaklinga ekki endilega með virkt smit, heldur gamalt.
„En þetta náttúrlega speglar útbreiðslu faraldursins erlendis. Það er mikil útbreiðsla þar. Þess vegna smitast margir á ferðalagi í útlöndum og koma heim með veiruna. Annað hvort veikjast í útlöndum eða koma heim með veiruna,“ segir Þórólfur.

Aðallega sé um fólk með íslenska kennitölu og þá búsett hér að ræða.
„En ríkisfang þessa fólks getur verið mismunandi. Það eru flestir Íslendingar. Það eru mjög margir Pólverjar í þessu hópi og önnur þjóðerni líka. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfum gott skipulag á skimunum og öðru slíku á landamærunum. Þær skimanir sem hafa verið í gangi hafa algerlega sannað gildi sitt,“ segir sóttvarnalæknir.
Án þessara skimana væri ástandið hér mun verra. Efasemdir eru uppi um lagastoð fyrir tillögu Þórólfs til heilbrigðisráðherra um að skylda þá sem ekki velja tvær skimanir við komuna til landsins að fara í tveggja vikna sóttkví í sóttvarnarhúsi.
„Þannig að þá þarf ég bara að koma með nýjar tillögur til að reyna að skerpa enn frekar á því að við lágmörkum áhættuna á smiti hingað inn. Það er verkefni dagsins í dag,“ segir Þórólfur Guðnason.