Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður málnefndar um íslenskt táknmál, fagnar því í grein á Vísi í dag að tíu ár séu liðin síðan Alþingi samþykkti lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál. Áfram haldi baráttan fyrir því að íslenska táknmálið njóti jafnræðis við íslenska tungu.
„Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og ber okkur að hlúa að því og vernda enda dýrmætt tungumál eins og íslenskan,“ segir Heiðdís. Hún segir alþekkta skoðun að íslenska táknmálið sé tungumál þeirra sem ekki hafi heyrn. Það sé þó ekki rétt.

„Margir einstaklingar sem hafa fulla heyrn eiga íslenskt táknmál sem móðurmál eða fyrsta mál og það ber að hafa í huga. Réttur þeirra sem tala íslenskt táknmál og reiða sig á það til tjáningar og samskipta er ekki virtur víða í þjóðfélaginu og tungumálanám í leik- og grunnskóla er enn víða takmarkaður eða enginn. Börn sem eiga íslenska táknmálið að móðurmáli fá ekki nám í því eins og íslensku og er það ósk þeirra og foreldra að það verði hægt að bæta úr því. Þau bera jú líka kyndilinn að halda íslenska táknmálinu lifandi á Íslandi.“
Að neðan má sjá myndband frá Félagi heyrnarlausra á Íslandi í tilefni dagsins. Þar útskýra Íslendingar á táknmáli af hverju það notar táknmál.