Heimir Már Pétursson fréttamaður fær Boga Nils Bogason forstjóra Icelandair til sín í Víglínuna á Stöð 2 til að ræða stöðu þessa stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins. Þá mætir Ingibjörg Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Bændahallarinnar og Hótels Sögu í þáttinn en Bændasamtökin hafa ákveðið að standa ekki framar sjálf að hótelrekstri í húsinu.

Icelandair tapaði 51 milljarði á síðasta ári að meðtöldum afskriftum á flugvélum. Fyrirtækið hefur notið vinnumarkaðsaðgerða stjórnvalda og sótt sér á þriðja tug milljarða í nýju hlutafé. Enn er þó óljóst hvort félagið þarf að draga á fimmtán milljarða lánalínu með ríkisábyrgð á þessu ári.
Farsóttin hefur reynt mjög á þanþol allra fyrirtækja í ferðaþjónustunni sem stóðu misjafnlega áður en hún hófst. Þannig höfðu staðið yfir miklar endurbætur á einu elsta og þekktasta hóteli landsins, hótel Sögu, þegar eftirspurn eftir gistingu hrundi á nokkrum dögum í upphafi síðasta árs.

Ingibjörg Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Bændahallarinnar og hótels Sögu mætir í seinni hluta Víglínunnar í dag. Hún þekkir mjög vel til ferðaþjónustunnar í landinu en framtíð Hótels Sögu er í mikilli óvissu. Fyrirtækið hefur verið í greiðsluskjóli í nokkra mánuði og skuldar á fjórða milljarð króna. Meðal annars hefur verið rætt að Háskóli Íslands kaupi bygginguna en áhugi á byggingunni virðist mikill bæði hér á landi og meðal erlendra aðila.
Víglínan er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 17:40.