Samkvæmt frétt vefsins handbolti.is gæti Staffan „Faxi“ Olsson tekið við þjálfun Íslendingaliðsins í sumar en félagið er í leit að þjálfara um þessar mundir. Ljubomir Vranjes var rekinn rétt fyrir jól eftir tvö ár sem þjálfara liðsins. Ulf Larsson steig þá inn í en hann mun aðeins stýra liðinu fram á sumar.
Árangur liðsins heima fyrir hefur ekki verið ásættanlegur en Kristianstad er í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Ystads IF. Liðinu hefur gengið ágætlega í Evrópudeildinni þar sem það situr í öðru sæti B-riðils með fimm sigra og þrjú töp að loknum átta leikjum.
Hinn 56 ára gamli Olsson var á sínum tíma einn besti leikmaður í heimi áður en hann sneri sér að þjálfun. Hann hefur hins vegar tekið sér dágóða pásu og ekkert þjálfað síðan hann hætti sem aðstoðarþjálfari franska stórliðsins Paris Saint-Germain árið 2018.
Þar áður hafði Olsson þjálfað sænska landsliðið á árunum 2008 til 2016 og á undan því stýrði hann sænska félaginu Hammarby frá 2005 til 2011. Það gæti því farið svo að Kristianstad verði annað liðið sem hann stýri í heimalandinu, það á eftir að koma í ljós þegar nær dregur sumri.
