Tveir skjálftar stærri en fjórir að stærð fundust upp úr klukkan tólf og virðist ekkert lát á skjálftavirkninni sem verið hefur á svæðinu undanfarna tvo sólarhringa. Fyrsti stóri skjálftinn reið yfir klukkan 12:06 og mældist 4,4 að stærð samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofu Íslands. Þremur mínútum síðar varð annar skjálfti 4,3 að stærð.
Sjálfur sat Fannar fjarfund hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra þegar skjálftarnir riðu yfir. Hann segir fundamenn hafa fundið fyrir skjálftunum, þar á meðal einn sem var austur í Flóa.
Fannar segir að bæjarbúar hafi verið farnir að vonast til að jarðskjálftahrinan hafi verið að fjara út. „Þó við séum ýmsu vön þá var það auðvitað þægileg tilfinning að skjálftunum hafi farið fækkandi og orðið minni.“
Fannar segir bæjaryfirvöld í Grindavík funda daglega með almannavörnum nú til að fá upplýsingar um gang mála en ljóst sé að búast megi við fleiri eftirskjálftum.