Evrópusamtök útvarpsstöðva (EBU) hótuðu því að vísa Hvíta-Rússlandi úr keppni ef landið breytti ekki laginu sem það sendi inn eða sendi inn nýtt lag í keppnina. Í laginu „Ég skal kenna þér“ er meðal annars línan „Ég skal kenna þér að hlýða“.
Mikill órói hefur ríkt í Hvíta-Rússlandi undanfarna mánuði. Lúkasjenka forseti var sakaður um stórfelld kosningasvik í ágúst. Ríkisstjórn hans brást með offorsi við fjöldamótmælum í kjölfarið. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa sumir hrökklast úr landi vegna þess.
Stjórnarandstæðingar í Hvíta-Rússlandi brugðust reiðir við laginu og að minnsta kosti einn Evrópuþingmaður krafðist þess að landinu yrði vísað úr keppni. Hljómsveitin Galasy ZMesta hefur ítrekað hæðst að mótmælendum og stjórnarandstæðingum í lögum sínum.
Lúkasjenka, sem hefur sakað vestræn ríki um að reyna að steypa sér af stóli, sagði frávísun Júróvisjónlagsins lið í þeirri þrýstingsherferð í fyrstu opinberu ummælum sínum um málið, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Við gerum annað lag. Þið munið sjá að þetta er allt pólitískt,“ sagði forsetinn.