Þetta kemur fram í ársreikningi Isavia samstæðunnar sem samþykktur var á aðalfundi félagsins sem fram fór með rafrænum hætti í dag. Fram kemur í tilkynningu að stærstan hluta af tekjusamdrætti samstæðunnar milli ára megi rekja til reksturs Keflavíkurflugvallar og Fríhafnarinnar en farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 81% frá 2019.
Enn sér ekki fyrir endann á áhrifum Covid-19 þegar kemur að ferðalögum milli landa. Staða handbærs fjár nam um 9,4 milljörðum króna í árslok 2020.
Erfitt ár fyrir rekstur flugvalla
„Árið 2020 var afar krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu í öllum heiminum. Heimsfaraldurinn af völdum Covid-19 tók í raun völdin í öllum okkar daglegu athöfnum og fór Isavia síður en svo varhluta af því. Á síðasta ári fór mikil orka í að tryggja fjármögnun og aðgang okkar að lausu fé ásamt því að standa vörð um sterka innviði félagsins,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í tilkynningu.
Hann bætir við að nú hafi samstæðan snúið vörn í sókn og tekist vel að tryggja aðgang að lausafé.

„Þrátt fyrir að hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir á síðasta ári um fækkun starfsfólks þá gátum við engu að síður staðið vörð um stærri hluta starfa hjá okkur. Fjármálaráðherra, fyrir hönd eiganda okkar, tók ákvörðun í byrjun þessa árs að auka hlutafé í félaginu sem gerði okkur kleift að fara með uppbyggingaáform Keflavíkurflugvallar af stað á ný.
Sú ákvörðun var afar mikilvæg, bæði fyrir samkeppnishæfni flugvallarins til framtíðar og möguleika okkar að komast út úr Covid-19, miðað við mismunandi sviðsmyndir en ekki síst fyrir erfitt atvinnuástand í nærsveitarfélögum Keflavíkurflugvallar.“
Fagna ákvörðun um að taka á móti bólusetningarvottorðum frá ríkjum utan Schengen
Sveinbjörn segir það lykilatriði að missa ekki sjónar á því markmiði að opna Ísland aftur þegar tækifæri gefst.
„Bólusetningar á tveimur af okkar mikilvægustu mörkuðum, Bretlandi og Bandaríkjunum, ganga vel og stjórnvöld á Íslandi hafa boðað afar mikilvæg skref í átt að opnun Íslands.
Auðvitað þurfum við að taka mið af stöðu faraldursins hverju sinni en við finnum fyrir miklum áhuga hjá flugfélögum sem við þjónum á þeim skrefum sem hafa verið rædd vegna umferðar til Íslands og munum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að endurheimtin verði sem farsælust,” segir hann í tilkynningu.
Engar breytingar á stjórn
Stjórn og varastjórn Isavia hlutu endurkjör á aðalfundinum í dag. Í aðalstjórn sitja Orri Hauksson stjórnarformaður, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson.
Í varastjórn sitja Hreiðar Eiríksson, Ingveldur Sæmundsdóttir, Óskar Þórmundsson, Sigrún Traustadóttir og Þorbjörg Eva Erlendsdóttir.