„Oscar er kraftmikill vinstri bakvörður sem getur einnig leikið á kantinum og kemur úr unglingastarfi West Ham United og lék með u18 ára liði þeirra. Árið 2016 gerði hann atvinnumannasamning við Aston Villa og lék með U-23 ára liðinu þeirra. Meiðsli settu hins vegar strik í reikninginn og náði Oscar ekki að leika fyrir aðallið félagsins,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.
Síðan þá hefur hann leikið með Braintree í ensku neðri deildunum og svo Arenas Club á Spáni. Hann hefur hins vegar verið án félags síðan síðasta sumar.
Hvort hinn 23 ára gamli Oscar Borg fari beint inn í byrjunarlið Stjörnunnar verður að koma í ljós en miðað við lýsinguna á Facebook-síðu Stjörnunnar ætti hann að smellpassa inn í lið Rúnars Páls Sigmundssonar.
Þórarinn Ingi Valdimarsson virðist hafa náð sér af meiðslum en hann lék tvo leiki með Stjörnunni í Lengjubikarnum í febrúar á þessu ári eftir að hafa ekkert leikið með liðinu á síðustu leiktíð. Hann getur einnig spilað í stöðu vinstri bakvarðar.
Stjarnan mætir nýliðum Leiknis Reykjavíkur í fyrstu umferð Pepsi Max deildarinnar. Samkvæmt vefsíðu KSÍ fer leikurinn fram þann 23. apríl en það á enn eftir að koma í ljós hvort leikirnir verði færðir þar sem æfinga- og keppnisbann er á Íslandi sem stendur.