Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti um lánið frá Norðmönnum á vef stjórnarráðsins í morgun.
Fljótlega fóru norskir fjölmiðlar að fjalla um lánið en TV2 náði tali af upplýsingafulltrúa norskra yfirvalda sem sagði lánið til skoðunar og niðurstöðu yrði að vænta fljótlega.
Gangi allt eftir er vonast til að bóluefnaskammtarnir verði komnir hingað til lands eftir helgi.
Það mun verða þess valdandi að nánast verður lokið við að bólusetja alla yfir 60 ára aldri í næstu viku.
„Þessir skammtar munu flýta verulega bólusetningum á 60 ára og eldri, sennilega um tvær til þrjár vikur í það minnsta,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, smitsjúkdómalæknir hjá embætti Landlæknis.
Þegar búið er að bólusetja 60 ára og eldri verður næsti hópur þeir sem þjást af undirliggjandi sjúkdómum.
„Það er mjög mikið hjartasjúkdómar, eins og kransæðasjúkdómar, eða hjartabilun, meðfæddir hjartagallar. Sykursýki, lungnasjúkdómar áunnir og meðfæddir, ýmis krabbamein og ónæmisbælandi meðferðir. Þetta eru sjúkdómarnir sem eru tilgreindir í leiðbeiningum fyrir einstaklinga með áhættuþætti,“ segir Kamilla.
Undirliggjandi sjúkdómar sem setja einstaklinga í mestu áhættuna gagnvart Covid eru fyrst og fremst ónæmisbæling og þeir sem eru með lungna- eða hjartasjúkdóma og geta veikst mjög hratt ef þeir fá lungnasýkingu.
Lang algengasti áhættuþættirnir hér á landi eru offita og hár blóðþrýstingur.
Þeir sem eru um fimmtugt og ekki með undirliggjandi sjúkdóm geta ekki búist við bólusetningu fyrr en í sumar að sögn Kamillu.
„Á eftir áhættuþáttunum koma leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar og þeir sem starfa í velferðarþjónustunni en hafa ekki enn fengið bólusetningu. Svo einstaklingar í viðkvæmri félagslegri stöðu. Þannig að einstaklingar með enga undirliggjandi áhættuþætti og ekki í neinum starfstengdum forgangi munu væntanlega ekki fá fyrr en í sumar.“