67% Íslendinga yfir 16 ára eiga að vera komin með fyrsta skammt af bóluefni 1. júní, en það þýðir þó ekki að allir þeirra verði komnir með vörn. Þess vegna er 1. júní ekki raunhæf dagsetning að mati tveggja vísindamanna, sem benda á að vörn fáist ekki eftir bóluefnasprautu fyrr en að liðnum að minnsta kosti tveimur til þremur vikum.
Þegar glærusýningin var samin virðist ríkisstjórnin hafa haft þessi 2-3 vikna tímamörk í huga, enda stendur þar að afléttingarnar komi til þegar búið er að „verja“ stærstan hluta fullorðinna með bóluefni, en ekki bara bólusetja.
Orðalagið hefur þó ekki skilað sér betur en svo að Sjálfstæðisflokkurinn, einn þriggja ríkisstjórnarflokkanna, dreifir nú skilaboðum á Facebook, þar sem sagt er fullum fetum: „Öllum takmörkunum verður aflétt þegar stærsti hluti fullorðinna hefur fengið fyrri skammt bóluefnis.“
Slíkar fullyrðingar eru ekki alls kostar í takt við glærusýningu heilbrigðisráðherra, sem er þó enn um sinn eina heimildin um tímasetningar meiri háttar afléttinga í sumar.
Ef marka má Jóhönnu Jakobsdóttur, lektor í líftölfræði við HÍ, og Ingileif Jónsdóttur, prófessor við læknadeild, verður erfitt að standa við loforð um afléttingar á öllum takmörkunum um leið og tilsettur fjöldi hefur fengið fyrri sprautu.
„Það tekur 2+ vikur að fá vörn (að hluta) eftir einn skammt af bóluefni. Áætlun stjórnvalda þarf því að hliðra um a.m.k. tvær vikur,“ skrifar Jóhanna Jakobsdóttir á Twitter. Hún telur jafnframt að vegna aldursdreifingar í bólusetningu náist hjarðónæmisþröskuldur ekki við 65% bólusetningu.
Ingileif skrifar að full vernd fáist ekki eftir bólusetningu fyrr en eftir mun lengri tíma en 2-3 vikur. „Þess vegna þarf að bíða helst mánuði lengur með opnun landamæranna en stjórnvöld gera ráð fyrir,“ skrifar Ingileif, en vægari ráðstafanir gagnvart ákveðnum löndum eiga að taka gildi á landamærunum 1. júní.
Ingileif bendir á að jafnan veiti einn bóluefnaskammtur aðeins vernd upp á um 60-70% og það yfirleitt ekki fyrr en að liðnum nokkrum vikum. Pifzer veitti þannig 61% vernd fjórum vikum eftir fyrsta skammt samkvæmt rannsókn í Bretlandi.