Átta flugvélar eru á áætlun til lendingar á Keflavíkurflugvelli í dag. Sú fyrsta, á vegum bandaríska flugfélagsins Delta, lenti á áttunda tímanum í morgun frá New York. Um hundrað og þrjátíu farþegar voru um borð, ýmist bólusettir gegn Covid eða með mótefni.
Fréttastofa hitti Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli í morgun. Hann segir komu Delta-vélarinnar marka ákveðin tímamót í kórónuveirufaraldrinum.
„Þessi vél er kannski fyrsta vélin sem er aðallega að koma með „detikeraða“ ferðamenn, það er allur munurinn, sem sýnir að ferðamannasumarið er kannski að hefjast núna,“ segir Jóhannes.

„Sá fjöldi véla sem er að koma núna þessa helgi og næstu daga sýnir það að þetta er aðeins að breytast núna inn í sumarið hjá okkur. Þetta eru kannski fyrstu merki um að landið sé að rísa, ekki bara í ferðaþjónustunni, heldur út úr þessum faraldri.“
Ferðamannastaumurinn muni vonandi byrja að aukast í maí og svo talsvert meira í júní.
„Til að byrja með verður þetta væntanlega aðallega bólusettir Bandaríkjamenn og þeir sem geta framvísað vottorðum frá Bandaríkjunum og Bretlandi, sem verða fyrstu alvöru túristarnir á landinu. En við munum þurfa að bíða væntanlega heldur lengur eftir fólki frá meginlandi Evrópu.“
