
Sleðarnir verða staðsettir í bækistöðvum hersins á norðaustur Grænlandi, í Meistaravík, Daneborg og Station Nord. Þeir ganga ekki fyrir eigin vélarafli heldur eru hefðbundnir vélsleðar notaðir til að draga þá áfram í snjónum eða eftir ísbreiðum.
„Þannig má fljótt sækja slasaðan einstakling og flytja um lengri vegalengdir,“ segir í frétt danska hersins.

Til að varna því að sjúklingur ofkælist í flutningi um ískaldar norðurslóðir eru sleðarnir yfirbyggðir og með olíukyntri miðstöð til að halda sjúkrarýminu hlýju. Þar er einnig rými fyrir annan einstakling til að hlúa að sjúklingnum meðan á flutningi stendur, lækni, sjúkraliða eða annan stuðningsaðila.
Sleðarnir eru af gerðinni Trailander Shuttle Rescue. Sérstök áhersla er lögð á góða fjöðrun til að hlífa sjúklingi sem mest við hristingi og höggum þegar ekið er yfir ójöfnur. Sleðinn var prófaður í byrjun ársins á svæðinu í kringum Meistaravík á vetraræfingu Síríus-sveitarinnar.