Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar átti að fara fram á Atatürk leikvanginum í Istanbúl 29. maí en nú virðist líklegra en ekki að hann verði færður á Wembley. Tvö ensk lið mætast í úrslitaleiknum, Manchester City og Chelsea.
Forsvarsmenn UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, ræða í dag við bresk stjórnvöld um að færa úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley. Búist er við því að niðurstaða fáist í málið á næsta sólarhring. Ef leikurinn verður á Wembley gætu allt að 22.500 manns verið viðstaddir hann.
Til að leikurinn færi fram á Wembley þyrftu bresk stjórnvöld að hlífa um þúsund starfsmönnum UEFA og sjónvarpsrétthafa við sóttkví við komuna til Englands.
Úrslitaleikurinn í umspili um sæti í ensku úrvalsdeildinni á einnig að fara fram 29. maí. Líklegt þykir að hann verði færður aftur um sólarhring.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.