„Vettvangur stjórnmálanna er um margt ólíkur öðrum sviðum samfélagsins. Þar hleypur mönnum oft kapp í kinn og það er ýmislegt sagt. En niðurstaðan í þessu, sama hvað þú vilt fara í miklar bollaleggingar um framtíðina, er einfaldlega mjög ánægjuleg fyrir okkur Sjálfstæðismenn,“ segir Bjarni.
Harkan í átökum Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur varð ljós í sigurræðu Guðlaugs á kosningavöku um helgina, þar sem hann sagði að einhverjir ónefndir aðilar hafi lagt gríðarlega áherslu á að hann yrði ekki oddviti flokksins í kjördæminu.
„Þið sáuð til þess að allir þeir sem unnu gegn því, að þeir töpuðu,“ sagði Guðlaugur við stuðningsmenn sína í ræðunni.
Í viðtali við fréttastofu fer Bjarni yfir málið og segist þar ekki vita nákvæmlega til hvers Guðlaugur er að vísa.
„Síðast þegar við héldum prófkjör í Reykjavík nutum við þess að hafa Ólöfu Nordal með okkur. Við höfum gengið til kosninga í millitíðinni og við höfum stillt upp listum þannig að við erum með tvö kjördæmi í Reykjavík og það hafa verið tveir oddvitar. En Guðlaugur var samt sem áður á eftir Ólöfu í síðasta prófkjöri.
Kannski er verið að vísa til þess að hann hafi verið efstur í goggunarröðinni ef svo mætti að orði komast. En þetta eru orð sögð í hita leiksins og ég finn ekki annað en að í þingliðinu okkar ætli menn að snúa bökum saman og sækja fram sem ein öflug heild.“
Bjarni segist aðspurður ekki hafa viljað sérstaklega að Áslaug Arna tæki oddvitasætið í stað Guðlaugs, heldur eigi vilji flokksmanna í Reykjavík að ráða því. Hann tekur ekki afstöðu til þess. Rætt hefur verið um að niðurstaðan í prófkjörinu geti haft nokkuð um það að segja hver tekur við sem formaður flokksins á eftir Bjarna.
Vill halda Sigríði og Brynjari í flokknum
Bjarni vonast enn til að fá Sigríði Andersen og Brynjar Níelsson á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann vill fjölga þingmönnum Reykvíkinga.
Brynjar og Sigríður sóttust bæði eftir öðru sæti í prófkjöri Reykvíkinga en báru hvort tveggja nokkuð skarðan hlut frá borði. Brynjar hafnaði í 5. sæti og segist hafa kvatt stjórnmálin en Sigríður var ekki einu sinni á meðal efstu átta í prófkjörinu. Hún segist ekki fara fram á sæti á listanum.
„Þetta sýnir að pólitíkin er harður heimur, jafnvel þingmenn sem eru með langan þingferil og mikla reynslu, geta átt undir högg að sækja gagnvart nýjum frambjóðendum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt í því en persónulega er ég nú að vonast til þess að við njótum áfram krafta þeirra og förum inn í kosningarnar í haust með þann metnað að fjölga þingmönnum Reykvíkinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Bjarni.