Helga Björg steig fram síðasta sumar og tjáði sig opinberlega um framgöngu borgarfulltrúans gegn sér. Hún sagði þá að sumarfrí hennar hefði varpað nýju ljósi á starfsumhverfið, hún gæti ekki lengur setið á sér án þess að bregðast opinberlega við ummælum Vigdísar um deilur þeirra innan vinnustaðarins.
Og nú virðist fjarlægð hennar frá starfinu aftur hafa orðið til þess að fá hana til að endurhugsa stöðuna. Undanfarna mánuði hefur hún unnið að verkefni á sviði jafnlaunamála í samstarfi Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga samhliða námi í kynjafræði.
„Fjarlægðin gerði mér kleift að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir og óskaði ég fyrir nokkru síðan eftir tilfærslu í starfi, úr starfi skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara yfir í jafnlaunamálin,“ skrifar Helga á Facebook. Fallist var á þá beiðni í lok maí. Hún hefur nú hafið störf á mannauðs- og starfsumhverfissviði.
Langar deilur
Vigdís og Helga Björg hafa lengi sakað hvor aðra um einelti og trúnaðarbrot. Deilur þeirra hófust þegar Vigdís fór að tjá sig opinberlega um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Reykjavíkurborg var gert að greiða starfsmanni ráðhússins skaðabætur vegna framkomu Helgu Bjargar í hans garð. Vigdís fékk þá skammir frá þáverandi borgarritara, Stefáni Eiríkssyni, sem taldi hana hafa brotið trúnað.
Deilur þeirra náðu svo hámarki í byrjun síðasta árs þegar Vigdís fór að krefjast þess að Helga sæti ekki fundi sem hún sæti sjálf.
Þegar fjarfundabúnaður var síðan tekinn til notkunar vegna samkomubanns segir Helga að mótmæli Vigdísar hafi falist í munnlegum athugasemdum og bókunum „auk þess sem borgarfulltrúinn snýr í mig baki, eins og hún hefur ítrekað fjallað um sjálf opinberlega,“ eins og Helga lýsti því þegar hún tjáði sig fyrst um málið á Facebook í fyrra.

Kerfið brást
Helga segist síðan hafa óskað eftir skoðun á því hvort framferði Vigdísar bryti í bága við siðareglur kjörinna fulltrúa og síðan hvort framkoma hennar félli undir skilgreiningu á einelti. „Þar sem borgarfulltrúinn kom sér undan þátttöku í rannsóknum á framkomu sinni hefur ekki fengist niðurstaða í málin,“ segir hún.
Hún telur kerfið skorta öll úrræði til að takast á við það þegar borgarfulltrúar fara út fyrir umboð sitt og hafa afskipti af einstaka starfsmannamálum „til dæmis með mannorðsmeiðandi og ósönnum ummælum um starfsfólk“.
„Sömuleiðis hefur því mistekist að tryggja með fullnægjandi hætti öryggi starfsfólks gagnvart ofbeldisfullri framkomu borgarfulltrúa jafnvel með hótunum um líkamsmeiðingar á lokuðum fundum,“ segir hún og vonar að kjörnir fulltrúar ráðist í nauðsynlegar úrbætur til að tryggja „heilnæmt og öruggt starfsumhverfi fyrir okkur öll“.