Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar Íslands. Þann 18. Maí síðastliðin fólu landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar þremur óháðum sérfræðingum að rannsaka andlát og myndun blóðtappa sem tilkynnt voru til Lyfjastofnunar í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Niðurstöðurnar benda til að bóluefnið hafi ekki leitt til alvarlegra aukaverkana nema í einu eða tveimur tilvikum.
Tíu tilkynningar voru teknar til skoðunar og vörðuðu fimm þeirra dauðsföll og fimm til alvarlegra aukaverkana af bólusetningu. Í fjórum af fimm tilkynningum er vörðuðu dauðsföll var það mat sérfræðinga að ólíklegt væri að bólusetning hafi leitt til andláts. Eitt andlát var talið hafa ólíklega eða mögulega verið orsakað af bólusetningu.
Í þremur af fimm tilkynningum um aukaverkanir var það mat sérfræðinga að ólíklegt til mögulegt væri að veikindin mætti rekja til bólusetningar. Möguleg tengsl voru milli bólusetningar og veikinda í einu tilfelli. Í einu tilfellanna var talið líklegt að bólusetningin hafi orsakað veikindin.
Þau tilfelli sem voru til skoðunar tengjast bóluefnum Pfizer, Moderna og AstraZeneca.
Í einu tilfelli eru tengsl milli aukaverkana og veikinda metin líkleg. Í því tilfelli er talið að einstaklingur sem fékk bóluefni AstraZeneca hafi fengið það sem kallast Vaccine induced thrombocytopenia and thrombosis (VITT). Veikindin eru afar sjaldgæf aukaverkun AstraZeneca og Janssen bóluefni og er talin sjást hjá einum af um 100 þúsund bólusettum.
Niðurstaðan er ekki talin kalla á breytingu á núverandi fyrirkomulagi bólusetninga gegn Covid-19 hér á landi.