Niðurstöður svokallaðrar Recovery-rannsóknar benda til þess að meðferðin gæti hjálpað einum af hverjum þremur sem leggjast inn á sjúkrahús með Covid-19. Lyfin ætti hins vegar aðeins að nota á þá sem hafa ekki myndað eigin mótefni gegn veirunni.
Lyfjakokteillinn, sem er framleiddur af Regenoron, bindur sig við veiruna og kemur í veg fyrir að hann smiti frumur og fjölgi sér.
Rannsóknin náði til um 10 þúsund einstaklinga á Bretlandseyjum sem voru lagðir inn vegna Covid-19. Meðferðin reyndist draga úr líkum á dauða, stytta sjúkrahúsvistina um fjóra daga að meðaltali og draga úr líkum á því að setja þyrfti sjúklinginn á öndunarvél.
Martin Landrey, annar tveggja sem fóru fyrir rannsókninni, sagði meðferðina hafa minnkað líkurnar á dauða um fimmtung. Meðferðin var notuð samhliða steralyfinu dexamethasone, sem hefur reynst minnka áhættuna á dauða um þriðjung hjá veikustu Covid-19 sjúklingunum.
Niðurstöðurnar eru sagðar sérstaklega ánægjulegar í ljósi þess að aðrar mótefnameðferðir hafa ekki gefið jafn góða raun, til að mynda meðferðir þar sem sjúklingum var gefinn blóðvökvi úr einstaklingum sem höfðu náð sér af Covid-19.