Ferðamannastraumurinn til landsins hefur aukist talsvert síðustu vikur en í gær komu um fjögur þúsund manns til landsins. Hlutfall bólusettra og þeirra sem eru með mótefnavottorð er um 80 prósent af þeim.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins skipuleggur sýnatökur á Keflavíkurflugvelli.
„Við höfum bara ekki starfsfólk til að sinna öllum þessum ferðamönnum,“ segir Ingibjörg Salóme. „Þeim fjölgar stöðugt og við erum bara ekki að ná að ráða í allar þessar stöður sem þyrfti til að taka sýni og fara yfir öll vottorð.“
Verkefnið færist til Landspítalans
Sóttvarnalæknir hefur sagst stefna að því að hætta að skima þennan hóp við landamærin um mánaðamótin, enda hlutfall smitaðra afar lágt og engin dreifing út frá þeim.
„Álagið hefur verið að stigmagnast í sýnatökum og ef við hættum til dæmis ekki að taka sýni úr bólusettum og þeim sem hafa smitast þá verður eitthvað undan að láta, held ég,“ sagði Ingibjörg Salóme.

Íslensk erfðagreining hefur hjálpað við landamæraskimanirnar. Um mánaðamótin flyst verkefnið þó alfarið til sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.
„Við núverandi aðstæður þá yrði það mjög mikið álag á deildina ef að þannig héldi áfram og það yrði aukning á því,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir deildarinnar.
„Það er möguleiki að það verði breytt um skilyrði fyrir skimanirnar sem myndi þá létta töluvert á. Þar að auki eigum við von á öðru greiningartæki, samskonar og við erum með.“