Janice McAfee krefst ítarlegrar rannsóknar á dauða eiginmanns síns í fangelsi í Barcelona á miðvikudag. Spænsk yfirvöld segja að svo virðist sem að McAfee hafi hengt sig í fangaklefa sínum. Fyrr um daginn hafði þarlendur dómstóll fallist á framsal hans til Bandaríkjanna.
Ekkjan segist hafa rætt við McAfee í síðasta skipti nokkrum klukkustundum áður en hann fannst látinn.
„Hinstu orð hans við mig voru: „Ég elska þig og ég hringi í þig í kvöld“. Þessi orð eru ekki orð manns sem er í sjálfsvígshugleiðingum,“ sagði Janice McAfee, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Sagðist hún kenna Bandaríkjastjórn og pólitískum ákærum gegn McAfee um hvernig fór. Sendiráð Bandaríkjanna á Spáni segist fylgjast grannt með rannsókn yfirvalda þar á dauða McAfee en vildi ekki tjá sig frekar um málið.
Reuters segir að sjálfsvígstíðni í spænskum fangelsum hafi reynst afar há í skýrslu Evrópuráðsins í fyrra en það þýðir að þau voru 25% tíðari en miðgildið í Evrópu. McAfee deildi klefa með öðrum fanga en var einn þegar hann lést. Enn er beðið niðurstöðu krufningar á líki hans.
McAfee auðgaðist á fyrsta veiruvarnarforritinu sem kom á almennan markað og var kennt við hann á 9. áratugnum. Seldi hann fyrirtækið fyrir hundruð milljónir dollara og lifði eftir það skrautlegu lífi. Hann var meðal annars grunaður um að eiga þátt í dauða nágranna síns á Belís og var síðar handtekinn með mikið magn skotvopna um borð í snekkju í Dóminíska lýðveldinu.
Í Bandaríkjunum var McAfee sakaður um svik í tengslum við rafmyntir og að standa ekki skil á skatti af milljónum dollara í tekjur sem hann hafði af ráðgjafarstörfum og fleiru.