„Þetta er eins og þessar aurskriður verða, þetta er helvíti mikill aur hérna niður hlíðina. Það er alveg ljóst,“ segir Viggó í samtali við fréttastofu. Skriðan hafi fallið úr svokölluðu lóni uppi í fjalli þar sem upptakan er fyrir snjóframleiðslu.

Viggó segir að um talsverðar skemmdir sé að ræða á svæðinu, þó að bæði skíðalyfta og hús hafi sloppið.
„Það þarf mikið að hreinsa, grjóthreina og koma þessu í horf. Þetta er rétt sunnan við lyftuna. Það er svæðið sjálft sem hefur orðið fyrir skemmdum. Það var búið að græða þetta upp, slétta og gera fínt. Nú er þetta bara drulla, grjót. Það þarf bara að hreinsa og græða það upp aftur. Það er bara eins og það er.“
Viggó segir tjónið því fyrst og fremst í formi vinnustunda og vélavinnu. Stefnt sé að því að koma svæðinu í lag fyrir komandi skíðatímabil. „Menn fara ekkert að leggja árar í bát hérna.“
Tilkynnt var um að aurskriða hafi fallið sunnar í Skagafirði í gær, í Varmahlíð, þar sem tvö hús færðust til.