Anníe Mist hefur tekið mörg skref í rétta átt í endurkomu sinni eftir barnsburð og hún fagnaði mikilvægum lyftum hjá sér í gær.
Anníe Mist eignaðist dóttur í ágúst en tryggði sér sæti á heimsleikunum í síðasta mánuði. Nú eru aðeins tuttugu dagar í heimsleikanna sem fara fram í Madison í Wisconsin fylki frá 27. júlí til 1. ágúst.
Anníe Mist sagði frá takmörkum sem hún náði í lyftingarsalnum þremur vikum fyrir leikana.
„Þetta eru kannski ekki stórar tölur fyrir suma en þær eru risastórar fyrir mig,“ skrifaði Anníe Mist.
Hún lyfti þá 87,5 kílóum í snörun (Snatch) og náði einnig hundrað kílóunum í jafnhöttun (Clean and Jerk).
Það er rétt að taka það fram að þessar tölur eru alvöru og það er gaman að sjá íslensku CrossFit goðsögnina vera komin í heimsleikaform.
„Ég er búin að eyða síðustu ellefu mánuðum í að koma til bala og reyna verða sterkari og hraustari á sama tíma og ég finn jafnvægið með að hugsa líka á sama tíma um Freyju,“ skrifaði Anníe.
„Ég hef lagt mikið á mig og hef reynt að halda þolinmæðinni með því að halda trú á ferlið og taka eitt skref í einu,“ skrifaði Anníe.
Nú eru við farin að nálgast heimsleikana. Ég mun geta allt í mínu valdi til að gera hana og mig sjálfa stolta af mér á heimsleikunum í ár,“ skrifaði Anníe Mist.
Anníe Mist birti síðan myndband af báðum þessum lyftum sínum en það má sjá hér fyrir ofan.