Í samkomulaginu segir að Arctica Finance hafi brotið lög um verðbréfaviðskipti með því að hafa ekki varðveitt móttekin viðskiptafyrirmæli frá viðskiptavinum með fullnægjandi hætti. Það má rekja aftur til febrúarmánaðar 2020 þegar Fjármálaeftirlitinu barst frávikatilkynning frá Arctica Finance í samræmi við tilmæli um rekstur upplýsingakerfa.
Þar kom í ljós að verklag útvistunaraðila Arctica Finance hafði ekki verið nógu skýrt við uppfærslu á póst- og afritunarumhverfi sem leiddi til þess að tölvupósthólf fimm fyrrverandi starfsmanna varðveittust ekki. Þar á meðal voru tölvupósthólf þriggja fyrrverandi starfmanna á sviði markaðsviðskipta sem sáu um framkvæmd viðskiptafyrirmæla frá viðskiptavinum.
Málið for til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu í mars 2020 og sendi Arctica Finance frummat sitt þann 3. júlí 2020 þar sem fram kom að gögn og upplýsingar frá Arctica Finance gæfu tilefni til að ætla mögulegt gróft brot, þar sem upplýsingar um viðskipti með milligöngu félagsins hafi ekki varðveist.
Í ágúst í fyrra lýsti Arctica Finance yfir vilja til að komast að sátt í málinu og útskýrði í bréfi til Fjármálaeftirlitsins að félagið hefði, ásamt útvistunaraðila, þegar gert viðeigandi úrbætur svo að fullnægjandi varðveisla gagna yrði tryggð. Fjármálaeftirlitið mat það svo að bætt hafi verið úr með fullnægjandi hætti.