Í tilkynningu til fjölmiðla er haft eftir Þóri Haraldssyni, formanni framkvæmdanefndarinnar, miðað við þær forsendur sem settar eru með samkomutakmörkunum sem taka gildi á miðnætti annað kvöld sé ljóst að ekki sé hægt að halda mótið.
„Þetta er afar þungbær og erfið ákvörðun. Við erum með tárin í augunum því margir hafa lagt hart að sér að gera það að veruleika og mörg börn og ungmenni búin að áforma að njóta helgarinnar með fjölskyldum sínum og vinum. En í ljósi aðstæðna verðum við að sýna ábyrgð og samstöðu á þessum óvissutímum og taka þátt í baráttunni. Því miður er ómögulegt að halda mótið með ábyrgum hætti innan þeirra takmarkana sem settar hafa verið og því verðum við að fresta mótinu,“ segir Þórir.
Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi hefur staðið yfir síðustu ár og er þetta annað árið í röð sem mótinu er frestað. Mótið átti upphaflega að fara fram á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020 í samstarfi við Héraðssambandið Skarphéðin og Sveitarfélagið Árborg.

„Mikil vinna orðin að engu - annað árið í röð“, segir orðrétt í tilkynningunni.
Þórir segir ómögulegt að líta fram hjá framlagi sjálfboðaliða HSK við undirbúning Unglingalandsmótsins. Þeir hafi lagt mikið á sig nú tvö ár í röð við undirbúning móta sem ekki fara fram. Ætla megi að um 3.000 klukkustundir sé þegar búið að vinna auk þess sem hátt í 200 sjálfboðaliðar hefðu unnið á hverjum degi á mótinu sjálfu. Mikil verðmæti hafi því orðið að engu í núverandi COVID-bylgju.
Skráning hefur verið í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ í allan júlí og stefndi í að mótið yrði eitt það fjölmennasta frá upphafi. UMFÍ mun endurgreiða öllum þátttakendum sem þegar hafa skráð sig.