Þetta staðfestir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans og formaður farsóttanefndar, í samtali við Vísi. Hann segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin í dag og að send verði út tilkynning á eftir.
„Þetta verða tíu dagar í einangrun fyrir þá sem eru bólusettir og geta talist til fullhraustra einstaklinga. Að því gefnu að þeir hafi verið einkennalausir í þrjá daga allavega,“ segir Már.
Hann segist ekki geta svarað fyrir hvað liggi að baki ákvörðuninni, hún hafi verið á borði sóttvarnalæknis.
Hinir sem eru óbólusettir verða áfram að afplána sína tveggja vikna einangrun, sem hefur verið miðað við hingað til. Og verða þá auðvitað að hafa verið einkennalausir í allavega viku til að losna.
Ekki náðist í sóttvarnalækni við gerð fréttarinnar.
Þeir sem eru í einangrun eins og er og falla undir þessa skilgreiningu eiga líklega von á símtali frá Covid-göngudeildinni í dag eða á morgun. Til að fólk geti losnað úr einangrun verður deildin að meta ástand þess með símaviðtali.
Eins og Vísir greindi frá í dag eru farsóttahús stjórnvalda nú yfirfull af sjúklingum í einangrun og ferðamönnum í sóttkví. Ljóst er að þessi breyting eigi eftir að létta eitthvað álagið á farsóttahúsunum á næstu dögum.