Björgunarlið vinnur nú hörðum höndum að því að leita að fólki sem kann að vera grafið í rústum húsa eftir skjálftann og hefur hitabeltisstormurinn Grace sem nú hefur gengið á land gert mönnum erfitt fyrir.
Búist er við að 25 sentimetra úrkoma muni falla á þeim svæðum sem verst verða úti. Sömuleiðis er óttast að úrhellið komi til með að leiða til mikilla aurskriða.
Á myndskeiðum má sjá mikið úrhelli sem herjað hefur á íbúa á austurhluta eyjunnar Hispanjólu , þar sem Haítí er að finna, og er búist við að leið Grace muni svo liggja yfir skjálftasvæðin á vesturhlutanum.
Erfitt gæti reynst að koma birgðum og hjálpargögnum til sumra svæðanna þar sem vegir hafa margir rofnað.
Skjálftinn á laugardaginn mældist 7,2 að stærð og fylgdu fjölmargir eftirskjálftar í kjölfarið. Jarðskjálftinn átti upptök sín um 125 kílómetra vestur af Port-au Prince höfuðborg landsins. Um sjö þúsund heimili eru rústir einar og önnur fimm þúsund mikið skemmd.