Már veitti fylgjendum sínum á Instagram innsýn inn í fastan lið undirbúnings sundmanna fyrir keppni; keppnisraksturinn. Sundmenn vilja nefnilega ekki láta nein líkamshár trufla sig í keppni þar sem jafnvel eitt sekúndubrot getur skilið á milli keppenda.
„Það má segja að þetta sé svolítið eins og helgiathöfn sundmanna, fyrir keppnir,“ segir Már á hringrás sinni á Instagram í dag.
„Þetta er ekki gert í þeim tilgangi að líta betur út, þó að auðvitað fyrir þá sem það fíla sé það bara bónus. Þetta er gert til að minnka alla mótstöðu við vatnið, maður verður mun straumlínulagaðri og klýfur betur vatnið þegar það eru ekki einhver leiðindahár að þvælast fyrir,“ segir Már.
Már keppir í flokki S11, flokki blindra, og stingur sér til 50 metra skriðsunds rétt eftir miðnætti annað kvöld. Hann keppir einnig í 100 metra baksundi, 200 metra fjórsundi og loks 100 metra flugsundi, á sínu fyrsta Ólympíumóti.