Samkvæmt niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar, sem voru birtar í Lancet Public Health fækkaði líffæraflutningum á heilum líffærum um 31 prósent í 22 ríkjum í fyrstu bylgju faraldursins.
Aðgerðum fjölgaði á ný yfir sumarmánuðina en fækkaði aftur í október, nóvember og desember. Á ársgrundvelli nam fækkunin 16 prósentum. Það jafngildir því að 11.200 færri líffæraflutningar voru framkvæmdir 2020 en árið á undan.
Eins og fyrr segir var munurinn nokkuð mikill eftir löndum, sem rannsakendurnir segja þörf á að skoða nánar. Hins vegar leiddi rannsóknin einnig í ljós að nýrnaflutningum fækkaði mest, um tæp 20 prósent, sem má líklega rekja til þess að einstaklingar með nýrnabilun geta yfirleitt beðið lengur eftir aðgerð en þeir sem bíða eftir til dæmis hjarta eða lifur.
Þá fækkaði aðgerðum þar sem líffæri voru flutt úr lifandi gjöfum meira en aðgerðir þar sem líffæri voru fengin frá látnum líffæragjöfum en skýrist líklega af því að menn hafi ekki talið það forsvaranlegt að framkvæma aðgerðir á lifandi gjöfum í miðjum smitsjúkdómafaraldri.