Jóhannes spyr í pistli á Facebooksíðu sinni hvort ásættanlegt sé „tölvuvillur og vankantar meðmælasöfnunarkerfis ákveði hvort þú megir nýta þér þinn lýðræðislega rétt“.
Hann segir að kjörstjórn hafi tilkynnt honum í gærmorgun að 70 undirskriftir hafi vantað uppá lágmarksmeðmælendafjölda og hann fengi frest til kl. 14, sem var um þrjár og hálf klukkustund.
Suðurkjördæmi er víðfeðmt, frá Sandgerði í vestri, austur að Höfn í Hornafirði, og segir Jóhannes að fyrir utan meinta tæknilega ágalla á kerfinu, hafi þessi frestur gert ómögulegt að ná til íbúa í fjarlægustu byggðarlögum til að safna undirskriftum á blað.
Þar með væri ekki að sjá „að jafngildissjónarmiðum gagnvart kjósendum kjördæmisins hafi verið fylgt.“
Mörg meðmæli sem þau hafi safnað á pappír hafi ekki komist til skila og mörg rafræn meðmæli „blokkuð af gölluðu tölvukerfi“ sem sé óboðlegt í lýðræðissamfélagi.
Jóhannes bætir við: „Ef þetta er ólöglegt, þá gætu kosningarnar í heild sinni orðið ólöglegar.“