Kvikmyndagerðarmaðurinn Árni Ólafur Ásgeirsson lést fyrr á þessu ári en hann markaði djúp spor í íslenskt kvikmyndalíf sem listamaður og manneskja. Hans fjórða og hinsta mynd, Wolka, er frumsýnd á RIFF í dag klukkan 19 í öllum sölum Bíó Paradísar.
Wolka segir frá 32 ára pólskri konu sem fórnar öllu með því að brjóta skilorð sitt, eftir fimmtán ára afplánun í fangelsi vegna morðs, og ferðast til Íslands til að leita að konu fyrir dularfullar sakir. Myndin er ein þriggja íslenskra kvikmynda hátíðarinnar (hinar eru heimildarmyndirnar Ekki einleikið og Hvunndagshetjur) sem einblína á sjónarhorn innflytjenda eða fólks með erlendan uppruna á Íslandi, og fer nánast alfarið fram á pólsku.
Árni Ólafur nam leikstjórn í kvikmyndaskólanum í Łódź í Póllandi á sínum tíma, en það er ein virtasti háskóli sinnar gerðar í heiminum. Myndin er pólsk-íslensk samframleiðsla, en Árni skrifaði handritið ásamt Michal Godzic, en í stöðum listrænna stjórnenda má finna góða blöndu Íslendinga og Pólverja.

RIFF tileinkar dagskrárflokki kvikmyndum Árna Ólafs, og verður hægt að sjá Blóðbönd (2006) klukkan 15 og Brim (2010) klukkan 13 fyrr um daginn.
Annar sérstakur dagskrárflokkur er tileinkaður félaga sem hvarf á braut á árinu, Dimitri Eipides, dagskrárstjóri RIFF á árunum 2005-2010. Á þessum upphafsárum hátíðarinnar hafði Dimitri mótandi þátt á stefnuna og setti á stokk meginkeppnisflokk hátíðarinnar, Vitranir, þar sem verk upprennandi kvikmyndagerðarfólks eru í fyrirrúmi.
Á löngum ferli kom Dimitri víða við sem dagskrárstjóri og stjórnandi kvikmyndahátíða en hann starfaði um árabil við kvikmyndahátíðina í Þessalóníku á Grikklandi og kvikmyndahátíðina í Toronto, svo eitthvað sé nefnt. RIFF sýnir nokkrar af eftirlætismyndum Dimitris á hátíðinni.
Í dag er sýnt gríska meistaraverkið Dogtooth (2010) eftir leikstjórann Yorgos Lanthimos (The Lobster, The Favourite).

Á undan sýningunni fer Yorgos Krassakopolous, núverandi dagskrárstjóri alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Þessalóníku og samstarfsmaður Dimitris, með stuttan ingang.
Dogtooth er sýnd aftur á laugardag klukkan 21.10 en einnig eru sýndar Taxidermia klukkan 18 og Kinbaku - The Art of Bondage klukkan 21.45 þann dag.
Kvikmyndasmiðja RIFF, Talent Lab, er skipuð átján upprennandi kvikmyndagerðarmönnum frá öllum heimshornum. Þátttakendur taka þátt í vikulangri smiðju þar sem hugmyndir eru þróaðar undir leiðsögn Margrétar Örnólfsdóttur, handritshöfundar.
Stuttmyndir þátttakendanna keppa um Gullna Eggið og eru sýndar klukkan 13.15 og 15.30 í dag. Leikstjórarnir verða spurðir spjörunum úr eftir sýningu.