Skallagrímur hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í Subway-deildinni; með fjórtán stigum gegn Keflavík, 66-80, 22 stigum gegn Val, 70-92, og svo með 64 stigum gegn Haukum í gær, 93-29.
Borgnesingar voru ellefu stigum undir eftir 1. leikhluta en skoruðu samt fimmtán stig í honum. Það sem eftir lifði leiks skoraði Skallagrímur hins vegar aðeins fjórtán stig.
Annar leikhlutinn var verstur en þar skoraði Skallagrímur aðeins eitt stig. Borgnesingar klikkuðu á öllum tíu skotum sínum og töpuðu boltanum níu sinnum. Nikola Nedorosíková skoraði eina stig Skallagríms í 2. leikhluta af vítalínunni.
Seinni hálfleikurinn var litlu betri en þar skoraði Skallagrímur aðeins þrettán stig samanlagt. Á endanum urðu stigin aðeins 29. Mammusu Secka, Embla Kristínardóttir og Maja Michalska voru stigahæstar í liði Skallagríms með sex stig hvor.
Leikmenn Skallagríms töpuðu boltanum alls 36 sinnum í leiknum og náðu bara 49 skotum á körfuna gegn 93 skotum hjá Haukum. Borgnesingar voru með 37 prósent nýtingu í tveggja stiga skotum og ellefu prósent í þriggja stiga skotum. Nedorosíková nýtti annað af aðeins tveimur vítaskotum Skallagríms í leiknum.
Haukar voru með 136 framlagsstig í leiknum á meðan Skallagrímur var með mínus tvö stig í framlag.
Vissulega vantaði bandarískan leikmann í lið Skallagríms en það tefldi samt fram þremur erlendum leikmönnum.
Næsti leikur Skallagríms er gegn Breiðabliki í Borgarnesi á miðvikudaginn. Ljóst er að Goran Miljevic, þjálfari Skallagríms, þarf eitthvað að fara yfir sóknarleik liðsins fyrir þann leik.