Einungis einn getur nú vitjað sjúklings á dag og það á auglýstum heimsóknartímum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttarnefnd Landspítalans.
Þar eru gestir sjúklinga beðnir um að athuga að einungis einn á dag geti vitjað sjúklings á auglýstum heimsóknartímum. Grímuskylda gesta sé án undantekninga og að gestir þurfi að vera tólf ára eða eldri.
Þá er bent á að gestir komi ekki í heimsókn ef þeir séu í sóttkví, með einkenni eða með sýni í gangi.
Þá þurfi aðstandendur sem séu nýkomnir erlendis frá að fara eftir sérstökum reglum sem varði þá.
Smituðum í samfélaginu hefur fjölgað talsvert síðustu daga og hafa meðal annars sjúklingar á hjarta-, lungna og augnskurðdeild Landspítala, eða 12G, greinst með kórónuveiruna síðustu daga.