Enn mátti sjá bensín leka úr flaki flutningabílsins í morgun á meðan lögregla og her reyndu að vísa stórum hópum fólks frá, sem höfðu safnast saman við flakið. Þetta segir í frétt Reuters um málið.
Sjá mátti kolsvört flök bíla og mótorhjóla sem skemmdust í sprengingunni og lík á víð og dreif. Hundruð höfðu safnast saman við slysstaðinn í morgun í Wellington hverfinu í Freetown, höfuðborg landsins.
Flutningabíllinn hafði lent í árekstri og gat komið á bensíntankinn. Hluti þeirra sem fórst í sprengingunni hafði safnast saman við bílinn til að sækja sér bensín sem lak úr tanknum út á götuna að sögn Yvonne Aki-Sawyerr, borgarstjóra.
Hér fyrir neðan er myndband af slysstað. Það er tekið eftir sprenginguna. Varað er við efni myndbandsins. Það er mjög grafískt og ekki fyrir viðkvæma.
Svona slys eru ekki einsdæmi og raunar fremur algeng í mið-Afríku. Hundruð hafa farist á undanförnum árum við það að sækja sér bensín sem hefur lekið, sem síðan hefur sprungið í loft upp.
Til að mynda fórust 85 í Tansaníu árið 2019 þegar eldsneytisflutningabíll sprakk og fimmtíu fórust í samskonar slysi í Austur-Kongó árið 2018.