Forsætisráðherra segir frásagnir fólks af dvöld sinni á barnaheimili á Hjalteyri á áttunda áratug síðustu aldar sláandi. Þá sé ljóst að það hafi verið vakin athygli á málinu í kerfinu án þess að það hafi verið brugðist sérstaklega við.
„Það hefur verið ótrúlega algengt að börn hafi verið sett í algjörlega óviðunandi aðstæður á vegum hins opinbera hvort sem það var ríki eða sveitarfélög. Það er full ástæða til að fara yfir málið sem snertir barnaheimilið á Hjalteyri. Lögin sem gilda um rannsókn og sanngirnisbætur heyra þó undir dómsmálaráðuneytið. Síðan hafa einstaka sveitarfélög verið að skoða svona mál sérstaklega eins og t.d. Arnarholtsmálið sem kom upp á Kjalarnesi,“ segir Katrín.
Katrín segir að heimilið og hjónin á Hjalteyri hafi margoft komið við sögu yfirvalda en samt ekki verið stöðvuð.
„Þarna er aðili hjá Akureyrarbæ sem bendir á að það er ekki allt með felldu á Hjalteyri. Það er samt ekki brugðist sérstaklega við því. Þá er ekki brugðist við þegar hjónin færa sig yfir til Garðabæjar. Heimilið er nefnt í fyrri skýrslu vistheimilisnefndar en það er ekki ráðist í sérstaka rannsókn á því og það er kannski spurning sem nú er uppi hvort það eigi að rannsaka það,“ segir Katrín.
Hún segir að ábending um aðbúnað barna á Hjalteyri hafi til að mynda borist til forsætisráðuneytisins árið 2012.
„Ég veit til þess að það barst erindi um heimilið til forsætisráðuneytisins árið 2012 sem væntanlega hefur verið vísað til vistheimilisnefndar og henni var falið að meta hvort hún tæki þetta til sérstakrar rannsóknar eða ekki og það var ekki niðurstaða nefndarinnar. Það kann að vera að það sé ástæða til að endurskoða það og þá með sveitarfélögum eins og gert hefur verið í tilfelli Arnarholtsmálsins,“ segir Katrín.
Katrín mælti í fyrra fyrir frumvarpi um sanngirnisbætur.
„Í fyrra voru samþykkt lög sem heimila greiðslu bóta til barna sem sættu illri meðferð á heimilum sem nutu leyfis ríkis eða sveitarfélaga. Þetta var frumvarp sem ég mælti fyrir og var samþykkt á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir að hægt sé að leita réttar síns varðandi sanngirnisbætur án þess að það fari fram rannsókn á þeim heimilum. Í kjölfarið var sett af stað vinna á meðferð fullorðinna fatlaðra og sú meðferð stendur ennþá yfir. Ég mun leggja fram skýrslu um málið fyrir þingið sem beindi því til mín á sínum tíma að kanna það hvort ástæða væri til að fara í sérstaka rannsókn á aðbúnaði fullorðinna fatlaðra. Í Hjalteyrarmálinu er um að ræða börn sem að eru ófötluð og falla því ekki undir þessi lög,“ segir Katrín.